Kjósum á kirkjuþing: Þau hafa setið á kirkjuþingi

4. mars 2022

Kjósum á kirkjuþing: Þau hafa setið á kirkjuþingi

Þórunn Júlíusdóttir

Frestur til að skila inn framboðum til kirkjuþings rennur út 15. mars. Tilkynningu um framboð skal skilað inn ásamt fylgigögnum á netfangið: kirkjan@kirkjan.is 

Rafrænar kosningar fara svo fram nk. 12. maí - 17. maí.

Kirkjan.is mun á næstu dögum birta stutt viðtöl við fólk sem setið hefur á kirkjuþing og segir það frá reynslu sinni í stuttu máli.

Kirkjuþing er sterkur lýðræðislegur vettvangur í starfi kirkjunnar. Þau sem sitja á kirkjuþingi hafa ábyrgðarmikið hlutverk sem felst meðal annars í því að hafa vald á hendi, til dæmis í fjármálum kirkjunnar. Seta á kirkjuþingi kallar á heilindi, samviskusemi og ábyrgðartilfinningu.

Fólk sem setið hefur á kirkjuþingi hefur komið úr flestum ef ekki öllum starfsstéttum samfélagsins og unnið gott starf í þágu þjóðkirkjunnar. Karlar og konur, fólk til sjávar og sveitar, þéttbýli og dreifbýli. Fólk á öllum aldri. Þetta hefur sýnt breidd þjóðkirkjunnar og sveigjanleika sem er nauðsynlegur í því fjölbreytta samfélagi sem kirkjan er. 

Seta á kirkjuþingi er líka gefandi og ánægjulegt starf þar sem kirkjuþingsfulltrúar eiga gott samfélag og kynnast þjóðkirkjunni á nýjan hátt.

Þórunn Júlíusdóttir er fædd á kirkjustaðnum Langholti í Meðallandi og ólst þar upp til tólf ára aldurs er foreldrar hennar fluttu að Mörk á Síðu. Vorið 1987 útskrifaðist hún frá Fósturskóla Íslands og lauk framhaldsnámi frá Kennaraháskóla Íslands 2008. Hún flutti að Seglbúðum í Landbroti 1989 og er gift Erlendi Björnssyni líffræðingi og fyrrum bónda. Í dag reka þau hjónin ferðaþjónustu og lítið sláturhús í Seglbúðum. Þórunn sat í sóknarnefnd Prestbakkakirkju á Síðu í nokkur ár í kring um síðustu aldamót. Hún hefur setið í valnefnd og þannig fengið að koma að vali presta í sókninni. Þá hef hún sungið í kirkjukór síðustu 28 árin. Þórunn sat fyrst á kirkjuþingi sem varamaður vorið 2012 og síðan á þingi til 2018.
 
Hvað er áhugaverðast við það að sitja á kirkjuþingi?
Mér fannst mjög áhugavert að sitja kirkjuþing. Það var gaman að kynnast fólki alls staðar að af landinu og heyra hvað fólk fer oft ólíkar leiðir í safnaðarstarfi.

Hvaða ráð myndir þú gefa þeim sem hafa áhuga á að bjóða sig fram til setu á kirkjuþingi?
Ég mæli með að fólk gefi sér góðan tíma til að kynna sér málefni kirkjunnar. Kirkjan er í eðli sínu íhaldssöm stofnun en um leið sveigjanleg og þarf á því að halda að sóknarbörnin taki þátt í að móta starf hennar.

Hvað kom þér mest á óvart í störfum kirkjuþings?
Fyrst kom mér mest á óvart hvað fundir þingsins voru ofboðslega formfastir þingsköp í föstum skorðum en þó fengu þeir sem málglaðastir eru nægan tíma til að tjá sig.

Hvernig fannst þér andrúmsloftið og samstarfsandinn hafa verið á kirkjuþingi?
Andrúmsloftið var mjög gott og þingmenn nýttu kaffitíma vel til að slá á létta strengi. Ég upplifði mikinn og góðan samstarfsvilja á meðal þingmanna.

Er eitthvað eitt sem stendur upp úr í minningunni frá tíma þínum á kirkjuþingi?
Það sem stendur upp úr frá þeim tíma sem ég var á kirkjuþingi eru kynni mín af málefnum kirkjunnar og góðu fólki sem vill þessu stóra samfélagi, sem kirkjan er.

hsh


  • Kirkjuþing

  • Kosningar

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Þing

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju